Yrðu Íslendingar
á köldum klaka ef
Norðmenn gengju í ESB?

Oft heyrist fullyrt að Norðmenn muni ganga í Evrópusambandið innan fárra ára og þá muni EES-kerfið hrynja. Íslendingar eigi þá engan annan kost en að ganga í ESB ef þeir ætli ekki að standa uppi samningslausir við helstu viðskiptalönd sín. Að sjálfsögðu er þetta hræðsluáróður og ýkjur. Íslendingar eiga margra annarra kosta völ hvað svo sem Norðmenn gera.

Vissulega er rétt að lífdagar EES-samningsins kynnu að styttast ef Norðmenn gengju í ESB. En enginn skyldi trúa þeim áróðri sem oft heyrist að sú þróun hlyti að hafa alvarleg áhrif á viðskipti Íslendinga í ríkjum EU. Auðvitað kæmu þá aðrir samningar milli Íslands og ESB í staðinn. Ísland var með ágætan samning við ESB í tuttugu ár áður en EES-samningurinn kom til og engin ástæða er til að ætla að ekki næðust einhvers konar tvíhliða samningar við ESB um markaðsmál, sbr. samninga Sviss við ESB.
Ef Norðmenn gengju í ESB en Ísland og Lichtenstein væru ein eftir í EES, held ég að forystumenn ESB tækju því fegins hendi að breyta EES-samningnum í tvíhliða samninga til að losna við það óhagræði sem fylgir stofnanakerfi EES-samningsins. Hafa ber í huga að ESB getur ekki sagt EES-samningnum upp nema fá til þess samþykki þjóðþinga allra aðildarríkja ESB. Íslendingar þyrftu því einungis að fá eitt ríki t.d. Dani, Svía eða Finna til að bíða með að staðfesta niðurfellingu EES-samningsins ef hætta væri á að samningurinn félli niður án þess að viðunandi tvíhliða samningar kæmu í staðinn.
Svo er það annað mál að ekkert bendir til þess að Norðmenn séu á leið inn í ESB á næstu árum. Stuðningsmenn ESB-aðildar í Noregi munu ekki taka þá áhættu að innsigla ósigur sinn endanlega með þriðju þjóðaratkvæðagreiðslunni þegar skoðanakannanir sýna að meirihluti Norðmanna er ýmist með eða á móti aðild og þjóðin þverklofin í afstöðu sinni. Andstaðan hefur farið vaxandi að undanförnu. Samkvæmt skoðanakönnun í Noregi sem birt var 31/3 05 reyndust fleiri andvígir en fylgjandi ESB-aðild, þ.e. 45% gegn 43%.

ESB og Evrópa er sitt hvað

Stuðningsmenn ESB víða um lönd reyna ákaft að telja fólki trú um að ESB sé Evrópa og öll mikilvæg samvinna Evrópuríkja fari fram á þeim vettvangi. Margir halda að starfsemi Evrópuráðsins og Mannréttindadómstólsins í Strassborg sé á vegum ESB. 

Nýlega hélt formaður
,,Evrópusamtakanna" á Íslandi því fram að styrkir úr Evrópska kvikmyndasjóðnum og öðrum menningarsjóðum sé afkvæmi ESB og tilkomnir hér á Íslandi gegnum EES-samninginn. En það er alrangt. Samningurinn um Evrópska kvikmyndasjóðinn varð til fimm árum áður en EES-samningurinn kom til sögu og ekki að frumkvæði ESB. Samið var um stofnun sjóðsins á vegum Evrópuráðsins sem er samstarfsvettvangur allra Evrópuríkja, óháður Evrópusambandinu. Íslendingar hafa samþykkt 170 slíka Evrópusamninga að frumkvæði Evrópuráðsins um margvísleg málefni, ekki síst á sviði menntamála. Sama gildir um Mannréttindadómstól Evrópu sem er ekki tengdur ESB á neinn hátt.

Gengi krónunnar

Danir og
Norðmenn

Söguleg
veiðireynsla

Úr ýmsum áttum

Stjórnarskrá ESB

Marklaus kosning

Fjárkröfur ESB

Hví sögðu Svíar nei?

ESB og EES
The EU and EEA