|
Norges Fiskarlag: Noregur hefði misst forræðið yfir nýtingu fiskistofna
Norges Fiskarlag benti einnig á að strandríkjunum væri best treystandi til að stjórna nýtingu auðlindanna í hafinu á sem skynsamlegastan hátt og þróun hafréttarmála hefði því fært þeim forræði varðandi stjórn og nýtingu fiskistofna. Með aðild að ESB myndi Noregur missa forræðið yfir nýtingu fiskistofnanna. ESB myndi annast gerð fiskveiðisamninga við ríki utan þess, m.a. við Rússa. Stofnanir ESB myndu ákveða lágmarksstærð á fiski, möskvastærð veiðarfæra, svæðaskiptingu og lokanir veiðisvæða. Samtökin bentu á að sjómenn og útgerðarmenn hefðu haft mikil áhrif á þær ákvarðanir sem teknar hefðu verið í norskum sjávarútvegi á liðnum áratugum og gott samstarf væri milli vísindamanna, yfirvalda og hagsmunasamtaka. En ef ESB tæki við stjórn sjávarútvegsmála yrði mikil fjarlægð milli þeirra sem ákvarðanirnar taka og hinna sem starfa ættu eftir þeim. Samtökin minntu einnig á að samkvæmt reglum ESB væri eftirlit með fiskiskipum í höndum fánaríkisins en ekki strandríkisins. Því myndu t.d. spænsk yfirvöld hafa eftirlit með spænskum skipum í norskri lögsögu og Spánverjar myndu ákveða viðurlög við brotum spænskra skipstjóra á fiskimiðunum við Noreg. Sjá einnig Sjávarútvegur, Söguleg veiðireynsla.
|
|