|
Svarið í þjóðaratkvæði Svía var ótvírætt: Nei-ið sigraði með yfirburðum. Engu að síður var niðurstaðan jákvæð. Því að í raun réttri voru Svíar að segja já við því að varðveita yfirráð sín yfir peningamálum og gengisskráningu eigin myntar. Niðurstaðan er jafnframt afar jákvæð fyrir málstað sjálfstæðissinna í norðvestanverðri álfunni og staðfestir enn einu sinni að í því horni Evrópu horfa menn tortryggnum augum á þróun ESB í átt til stórríkis. Upptaka evrunnar er einmitt hugsuð sem mikilvæg varða á þeirri leið. Úrslitin falla sem sagt vel inn í þá mynd sem við blasir: Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar halda sig utan við ESB og Svíar, Danir og Bretar standa utan við evrusvæðið. Múr hins væntanlega stórríkis ESB verður því áfram verulega skörðóttur í norðvestur horni Evrópu og úrslitin gera það enn vonlausara en áður fyrir Tony Blair að fá Breta til að fórna pundinu fyrir evru enda sýna kannanir að hann hefur mikinn meirihluta landsmanna á móti sér, ekki síður til hægri en vinstri.
Hagsveiflan í evrulandi nálgast núllið Það var fjölmennur hópur virtra hagfræðinga sem leiddi baráttuna fyrir varðveislu sænsku krónunnar og sýndi fram á það með sterkum rökum að áhættusamt væri fyrir Svía að afsala sér yfirráðum yfir peningamálum sínum og sætta sig við mynt sem fyrst og fremst myndi þróast eftir aðstæðum í kjarnaríkjum ESB, Þýskalandi, Ítalíu og Frakklandi. Hagsveiflan þar suður frá er æði oft í litlu samræmi við efnahagsástandið í Svíþjóð, eins og reyndar blasir við hvers manns augum þessa dagana. Hjá Svíum er hagsveiflan á uppleið og hagvöxtur 2,4% en á evrusvæðinu stefnir kúrfan bratt niður á við og er nú í 0,1 %. Þessi efnahagslegu rök eiga ekki síður við í Bretlandi og valda einmitt miklu um það að Bretar halda fast í pundið. Augljósust eru þessi rök þó á Íslandi þar sem hagsveiflur eru enn síður í takt við evrusvæðið en í Svíþjóð og Bretlandi. Ein helsta ástæðan fyrir því að hagsveiflur í fyrrnefndum ríkjum rísa og hníga í öðrum takti en gerist á evrusvæðinu er tvímælalaust sú að viðskipti þeirra við dollarasvæðið eru veigameiri þáttur í útflutningstekjum þeirra. Íslenskir hagfræðingar hafa sýnt fram á að samsvörun á breytingum viðskiptakjara milli Íslands og evrusvæðis er nánast engin sögulega séð (0,3%). Ísland hefur einmitt skýrasta sérstöðu ríkja í vestanverðri álfunni, hvað gerð atvinnu- og efnahagslífs varðar, en umræðan í Svíþjóð og Bretlandi minnir okkur á að þessi ríki ásamt Noregi hafa einnig mikla sérstöðu.
Sjálfstæðissinnar og aðildarsinnar Evrópusinnar biðu ekki ósigur um helgina en aðildarsinnar gerðu það. Misnotkun hugtakanna evrópusinnar og evrópuandstæðingar, eins og sjá mátti í grein Úlfars Haukssonar hér í blaðinu s.l. mánudag og alltof oft heyrast, er að sjálfsögðu rakalaus útúrsnúningur sem enginn ætti að leyfa sér í málefnalegri umræðu. Þeir sem vilja varðveita sænska yfirstjórn peningamála í eigin landi geta hins vegar með réttu talist sjálfstæðissinnar og sama gildir um þá sem ekki kæra sig um að fullveldisréttindi Íslendinga verði dregin inn undir miðstjórnarvald væntanlegs stórríkis. Sjálfstæðissinnar eru ekki á móti Evrópu eða evrópsku samstarfi þótt þeir felli sig ekki við það sjálfstæðisafsal sem felst í aðild að nýja risaveldinu. Hugtökin evrópusinnar og evrópuandstæðingar eru aðeins fáránleg uppnefni og fyrst og fremst til marks um takmarkalausan yfirgang áhangenda stórríkisins í umræðu fjölmiðla. Í öllum fréttatímum Ríkisútvarpsins - hljóðvarps fyrsta hálfa sólarhringinn eftir að úrslitin í Svíþjóð lágu fyrir glumdi eftirfarandi fullyrðing fréttamanns: Svíar verða aftur að kjósa um upptöku evrunnar en það verður að öllum líkindum ekki fyrr en 2010. Hvað veit fréttastofa útvarpsins um það hvort Svíar "verði að kjósa aftur"? Ef Svíar hefðu samþykkt evruna hefði fréttamanninum ekki til hugar komið að segja að kosið yrði aftur eftir nokkur ár. En úr því svarið var ekki eins og evrusinnar vildu hafa það þykir sjálfsagt að slá því föstu að kosið verði aftur. Þetta er önnur algeng ósvífni sem tengist samrunaferlinu í álfunni um þessar mundir. Þjóðir sem sækja um aðild lenda í þeim vítahring að þær eru látnar kjósa aftur og aftur ef niðurstöðurnar falla ekki að áformum forvígismanna ESB. Þetta hafa Norðmenn, Danir og Írar þegar reynt. Í höfuðstöðvum ESB þýðir nei ekki nei heldur eitthvað allt annað. Og fréttamönnum fjölmiðla virðist finnast það sjálfsagt mál. Jafnframt eys ESB tugmilljónum evra árlega í áróður til stuðnings samrunaferlinu og til að hafa áhrif á niðurstöður þjóðaratkvæðis í ríkjum sem kjósa um aðild eða um evru. Upplýsingar um fjáraustur ESB í áróðursskyni bæði í Póllandi og á Möltu vöktu þar mikla reiði. Jafnframt hika þjóðarleiðtogar og ráðherrar í aðildarríkjum ESB ekki við að blanda sér í kosningabaráttu annarra ríkja og sáust fjölmörg ósvífin dæmi um þetta seinustu vikurnar bæði í Svíþjóð og Eistlandi.
Örlagahyggjan veður uppi Úrslitin í Svíþjóð eru ekki síst stórmerkileg þegar haft er í huga hvílíkt ofurefli sjálfstæðissinnar í Svíþjóð áttu við að stríða. Það var ósk þeirra þegar ákvörðun var tekin um þjóðaratkvæði að kjósendur fengju að velja milli tveggja jafngildra kosta sem settir yrðu fram með hlutlausu orðalagi, annars vegar að sænska krónan skyldi gilda áfram, hins vegar að evran yrði tekin upp. En þar eins og víðar réð yfirgangur aðildarsinna ferðinni; þeir fengu því framgengt að evrusinnar segðu já en stuðningsmenn krónunnar nei. Þannig hefur þetta víðast hvar verið þar sem kosið hefur verið um mál tengd ESB. Afstaða sjálfstæðissinna er fyrirfram stimpluð sem neikvæðni og sagt er að þeir séu á móti Evrópu. Þegar yfirgnæfandi meirihluti þjóðar hafnar ákveðnum áfanga samrunaferlisins er frá því sagt í fjölmiðlum eins og eitthvert slys eða mistök hafi átt sér stað, sbr. áðurnefnda fullyrðingu Ríkisútvarpsins að Svíar "verði" að kjósa aftur. Í sömu frétt útvarpsins var jafnframt klifað á því að stuðningsmenn sænsku krónunnar hefðu "dansað stríðsdans í nótt" og er þá gefið í skyn að um villimenn sé að ræða sem hvergi séu í húsum hæfir. Allt er þetta til vitnis um þá örlagahyggju sem veður uppi í innlendum og erlendum fjölmiðlum: "Svíar munu fyrr eða síðar ganga í myntbandalagið." "Norðmenn munu áreiðanlega sækja um aðild eftir næstu þingkosningar." "Íslendingar neyðast til þess að ganga í ESB hvort sem þeim líkar betur eða verr." Stöðugt má heyra og lesa fullyrðingar af þessu tagi byggðar á óskhyggju aðildarsinna. En ef betur er að gáð er hitt miklu sennilegra að Norðmenn og Íslendingar standi utan við ESB um langa framtíð. Og nú stendur sænska ríkisstjórnin frammi fyrir þeirri spurningu hvort hún fái samþykki Svía við væntanlega stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæði. Það samþykki getur orðið torfengið, ekki síður en hitt sem að því snýr að fórna sænsku krónunni. (Grein í Morgunblaðinu 16. September 2003)
|
|