|
Þegar evran féll um 30 %
Á árinu 2001 féll gengi íslensku krónunnar í kjölfar þess að markaðurinn var látinn ráða genginu. Gengisfallið var afleiðing af stórfelldum viðskiptahalla undangenginna ára sem átti rætur að rekja til þess að losað var um allar hömlur á erlendum lántökum og bankar lánuðu út miklu meira fjármagn en nam innlendum sparnaði. Þessi hömlulausa dæling erlends lánsfjár inn í hagkerfið, m.a. með stórauknum yfirdráttarskuldum einstaklinga hlaut fyrr eða síðar að enda með gengisfalli.
Gengisfall myntar er til marks um veikleika í hagkerfinu. Miklu skiptir þó hvenær gengið fellur eða stígur. Gengisfall veldur mestu tjóni ef það verður á sama tíma og hagkerfið er að ofhitna. Þannig var ástatt á árinu 1999. Þá var evran í frjálsu falli mánuð eftir mánuð og lækkaði gagnvart dollar um nærri 30 % á rúmu ári. Ef evran hefði ráðið verði íslensks gjaldmiðils hefði það verkað eins og olía á eldinn og sett íslenska hagkerfið í enn meiri kreppu en varð.
Íslenska krónan hefur lengstaf ekki sveiflast meira gagnvart dollar en evran fyrr en nú að raungengi krónunnar hefur hækkað mjög og evran fallið gagnvart krónu um 10% á einu ári.
|
|