Ragnar Arnalds:
Óbilgjarnar
kröfur ESB

Ísland hefur gert samninga við mörg hinna nýju aðildarríkja ESB um gagnkvæman markaðsaðgang og tollfrelsi. En í ESB gildir sú regla við inngöngu að aðildarríki eru svipt réttinum til að vera með sjálfstæða viðskiptasamninga við önnur ríki. Við stækkun ESB rísa því nýir tollmúrar milli Íslands og þessara nýju aðildarríkja þvert gegn vilja þeirra og okkar nema um annað sé samið.
Nú mátti ætla að ESB féllist athugasemdalaust á óbreyttan markaðsaðgang milli fyrri samningsaðila þótt samningsumboðið flytjist frá aðildarríkjunum til ESB. En þá gerist það ótrúlega að forvígismenn ESB ákveða að nýta sér væntanlegt umboð til að þvinga Íslendinga og Norðmenn til að greiða 38 sinnum hærri framlög til þróunarsjóða ESB en samið var um í EES-samningnum en þau framlög áttu reyndar að vera niður fallin fyrir mörgum árum. Og ekki nóg með það. Tollmúrum ESB er beinlínis beitt til að reyna að knýja okkur til að fallast á að fyrirtæki í ESB-löndum megi fjárfesta í sjávarútvegi okkar og þar með sé opnað fyrir kvótahopp frá Íslandi og Noregi til fyrirtækja í ESB.
Þessar óvæntu kröfur ESB hafa vakið almenna hneykslun og undrun hér á landi hjá nær öllum sem hafa tjáð sig um málið. Milljarðakröfur ESB á hendur okkur Íslendingum fyrir það eitt að mega halda markaðsaðgangi sem við þegar höfum er óbilgirni sem fæstir hefðu trúað fyrir fram að forystumenn ESB gerðu sig seka um. Þessar kröfur eru þó aðeins forsmekkurinn af þeirri skattheimtu sem aðild fylgir. ESB er ört vaxandi stórríki sem þarf á gífurlegum fjármunum að halda þegar veldi þess þenst út til austurs. Sjóðakerfi þess, sem frægt er að endemum fyrir spillingu og undanskot, mun nú breiða úr sér í austurátt og skattheimta sambandsins á því eftir að stóraukast.
Þessi mikla óbilgirni er þó einkar lærdómsrík fyrir Össur og forystulið Samfylkingarinnar sem reyndi að telja flokksmönnum sínum trú um að sanngirnin ein og tillitssemin myndi ráða ríkjum þegar við hefðum afhent embættismönnum í Brussel yfirráðin yfir fiskimiðum okkar og ESB tæki að úthluta aflakvótum á Íslandsmiðum milli aðildarríkjanna með vísan til heildarhagsmuna og sameiginlegra þarfa aðildarríkjanna. Þörf ESB fyrir hlutdeild í fiskveiðkvótum Íslendinga er ekki minni en þörfin fyrir íslenskt skattfé, en einmitt um þessar mundir er ESB að skera niður þorskkvóta á miðum sínum um nærri helming vegna lélegrar fiskveiðistjórnar.
Eins er lærdómsríkt fyrir okkur öll sem tökum þátt í þessari umræðu að sjá hvernig ný aðildarríki neyðast til að fórna samningsrétti sínum í viðskiptamálum, þessum mikilvæga þætti í sjálfstæði hvers ríkis, í hendur stórríkinu sem síðan notar nýfengið umboð til að þvinga ríki utan sambandsins til greiðslu risavaxinna gjalda í sjóði sem þau hafa ekkert með að gera. Og þá er ekki síður eftirtektarvert að verða vitni að því hvernig samningar um tollfrelsi gufa upp og verða að engu bak við volduga tollmúra ESB sem aðdáendur ESB hafa keppst við að lýsa sem framverði frelsis og sanngirni í viðskiptum.
Eða væri það æskilegt hlutskipti Íslendinga að hverfa með viðskipti sín á bak við tollmúra ESB? Við erum staðsett miðja vega milli Ameríku og Evrópu og höfum hagsmuna að gæta um allan heim. Framsal til Brussel á valdi okkar til að gera viðskipta- og fiskveiðisamninga væri afdrifaríkt skref aftur á bak. Það er þröngsýn stefna og skammsýn að fórna samningsfrelsi fyrir ESB-aðild. Um allan heim leynast markaðsmöguleikar fyrir íslenska framleiðslu. Þess vegna er HEIMSSÝN það viðhorf sem hentar okkur Íslendingum best.
                                  (Úr grein í Morgunblaðinu 15. janúar 2003)

Gengi krónunnar

Danir og
Norðmenn

Söguleg
veiðireynsla

Úr ýmsum áttum

Stjórnarskrá ESB

Marklaus kosning

Fjárkröfur ESB

Hví sögðu Svíar nei?

ESB og EES
The EU and EEA